Frábær fjallaferð á Tenerife fyrir göngugarpa sem kunna að meta friðsæld og ósnortna náttúru ásamt því að hafa gaman af að kynnast menningu og sögu heimamanna, m.a. í mat og drykk. Í hinum friðuðu þjóðgörðum El Teide og Anaga-skagans ríkir einstök fegurð þar sem miklar andstæður mætast í landslagi og náttúru, þannig að upplifun göngugarpsins er eins og að vera staddur á fallegu póstukorti hverju sinni.
Í þessari einstöku gönguferð í þjóðgörðum Tenerife, kemst göngugarpurinn ekki bara í snertingu við hina ósnortnu friðuðu náttúru, heldur upplifir hann einnig sterkt hvernig lífið á Tenerife var áður en ferðamannastraumurinn barst til eyjarinnar. Gengið verður í mikilli fjallafegurð, þar sem landslagið einkennist af miklum andstæðum, hrauni og iðagrænum gróðri, með háum og tignarlegum fjöllum og djúpum dölum og gljúfrum.
Gönguferðin byrjar í þjóðgarði El Teide en hann hefur verið settur á heimsminjaskrá UNESCO og munum við klífa Guajara-fjallið sem er þúsund metrum lægra en hæsta fjall Spánar, El Teide eða í 2.718m en þegar upp á toppinn er komið blasir við víðáttumikið útsýni til allra átta.
Þá verða teknar fjórar fjallgöngur í háu og stórbrotnu fjalllendi Anaga-skagans en landslagið þar einkennist einnig af miklum andstæðum, þar sem iðagrænir regnskógar mæta hrjóstrugu landslagi með kaktusum og agave-plöntum. Farið verður á slóðir, sem ferðamenn fara öllu jafna ekki á m.a. í gegnum gömul vatnsgöng.
Þá verður borðað á framandi veitingastöðum og gefinn frjáls dagur í hinni einstöku höfuðborg Tenerife, Santa Cruz. Toppurinn er svo slökun á yndislegu 5* hóteli nálægt miðborginni.
Tenerife er stærsta og fjölsóttasta eyjan af þeim átta eyjum sem tilheyra Kanaríeyjunum. Hún er staðsett mitt á milli eyjanna Gran Canaria, La Gomera og La Palma. Tenerife er eldfjallaeyja sem talin er að hafi myndast fyrir 8 milljónum ára. Hún er í u.þ.b. 300 km fjarlægð frá meginlandi Afríku og í u.þ.b. 1300 km frá meginlandi Spánar. Eyjan er 2.034 ferkílómetrar að flatarmáli og er eins og þríhyrningur í laginu og fer hún hækkandi eftir því sem nær dregur miðju og nær hámarki með Pico del Teide sem er hæsta fjall Spánar í 3.718 m hæð yfir sjávarmáli. Santa Cruz er höfuðborgin þar sem búa um 250.000 íbúar en á eyjunni búa tæplega milljón manns.
Meðalhiti á Tenerife er í kringum 22-25 °C en athugið að hitastigið getur verið lægra upp til fjalla.
Anagaskaginn
Anagaskaginn á norðausturhluta Tenerife er elsti fjallgarður eyjarinnar, en þar einkennist landslagið af bröttum og tignarlegum gróðursælum fjallgörðum. Gönguleiðir og umhverfi Anagaskagans minna einna helst á sviðsmynd í ævintýralegum kvikmyndum á við Lord of the Rings. Göngugarpurinn kemst ekki bara í snertingu við hina ósnortnu friðuðu náttúru þessa einstaka þjóðgarðs, heldur upplifir hann einnig sterkt hvernig lífið á Tenerife var áður en ferðamannastraumurinn hófst á eyjunni.
Guajara
Fjallið Guajara, sem er staðsett í þjóðgarði El Teide er 2.718 m hátt og er þar með fjórða hæsta fjall Tenerife. Guajara ber nafn sitt frá prinsessu á tímum frumbyggjanna, guanches, en hún á að hafa klifið fjallið og kastað sér fram af björgum þess í sorg sinni eftir að eiginmaður hennar Tinguaro féll í orrustu í borginni La Laguna gegn Spánverjum.
Santa Cruz
Santa Cruz er höfuðborg Tenerife með um 250.000 íbúa. Borgin er gróðursæl og iðar af mannlífi. Þar er að finna skemmtilegar göngugötur með kaffihúsum, veitingastöðum og verslunum. Þá eru þar fallegir almenningsgarðar eins og García Sanagría og torgið Plaza de España, þar sem gaman er að rölta um og njóta lífsins og virða m.a. fyrir sér minnismerki um þá sem féllu í borgarastríðinu. Í borginni er einnig að finna stóra verslunarkjarna og matar- og útimarkaði þar sem hægt er að gera góð kaup.
Í Santa Cruz eru nokkur áhugaverð söfn, þar á meðal her- og vopnasafn og náttúrgripasafnið með fornum minjum frá tímum frumbyggjanna á Tenerife. Í miðborginni eru líka fallegar gamlar kirkjur sem er gaman að heimsækja, m.a. San Francisco kirkjan frá árinu 1680 og Frúarkirkjan frá 18. öld. Í aðeins 10 mínútna akstursfjarlægð er ein fallegasta sandströnd Tenerife, Teresitas-ströndin við hinn notalega bæ San Andrés.
Fimmtudagurinn 27. febrúar– Ferðadagur – Flug frá Keflavíkurflugvelli kl. 10:00
Föstudagurinn 28. febrúar– Fjallganga: Guajara 2.718 m – 8,3 km – Matur og vín á vínbúgarði
Laugardagurinn 1. mars– Fjallganga: Chamorga – Roque Bermejo – 8,7 km
Sunnudagurinn 2. mars– Fjallganga: Leynileiðin – Óvissuferð – 8,9 km
Mánudagurinn 3. mars – Frjáls dagur
Þriðjudagurinn 4. mars– Fjallganga: Taborno – Afur – 9 km
Miðvikudagurinn 5. mars– Fjallganga: Cruz de Carmen – 5,5 km – hellaveitingastaður
Fimmtudagurinn 6. mars – Ferðadagur – Flug kl. 17:35 frá Reina Sofia flugvelli
Ferðin flokkast undir það sem kallast ,,tveir skór“. Sumar göngurnar svipa til göngu upp á Esju en ávallt er hluti leiðanna niður á við eða á jafnsléttu. Mikilvægt er að göngufólk sé í góðu gönguformi. Ein leiðin gæti reynst erfið fyrir lofthrædda, en þar er samt um mjög stuttan kafla leiðarinnar að ræða, sem er nokkuð brattur á aðra höndina, kannski 3 mínútna leið, en þá er líka alltaf möguleiki á að fara aðra leið til baka, þar sem tveir fararstjórar fara með í ferðina. Þess ber að geta að aldrei er um þverhnípi að ræða og göngustígar nokkuð breiðir. Önnur leið gæti reynst erfið fyrir þá sem eru með innilokunarkennd en sá kafli tekur þó fljótt af og vert að taka fram að göngin eru mannhæða há og tæpur metri á breidd. Elsti farþegi sem hefur farið með okkur þessar leiðir var kominn yfir sjötugt.
Vissir þú að frumbyggjar Kanaríeyjanna kölluðu konung sinn „El Mencey“?
Iberostar Heritage Grand Mencey býður ykkur upplifun á heimsklassa eins og nafnið gefur til kynna á eina fimm stjörnu hóteli höfuðborgarinnar, Santa Cruz, sem er í 10 mínútna göngufæri frá miðbænum.
Þetta hótel hefur oft orðið fyrir valinu hjá konungsfólki, leikurum, tónlistarfólki og listafólki og nú ætla íslenskir göngugarpar að njóta þeirrar sælu sem þetta 70 ára virðulega hótel hefur upp á að bjóða m.a. í fallegum gróðursælum sundlaugargarði og notalegu SPA.
Hótelinu er mjög annt um umhverfið og notast því við vistvæna stefnu:
Vinsamlega athugið að ljósmyndir af gististöðum, sem birtar eru á heimasíðu Tíu þúsund feta, eru fengnar frá gististöðunum. Þær eru aðeins til þess að gefa hugmynd um útlit þeirra. Tíu þúsund fet bera ekki ábyrgð á því ef eitthvað hefur breyst á gististöðunum frá því að ljósmyndir voru teknar. Tíu þúsund fet stjórna ekki staðsetningu farþega innan gististaða.
Í gönguferðum Tíu þúsund feta fara þaulreyndir íslenskumælandi fararstjórar með í ferðirnar. Þeir hafa gengið í um og yfir 50 gönguleiðir á eyjunni fögru og sumar leiðirnar hafa þeir farið oftar en einu sinni og oftar en tvisvar ýmist með gönguhópum eða á eigin vegum. Þeir störfuðu í rúm 12 ár sem fararstjórar á Tenerife og eru því viskubrunnar um sögu og náttúru eyjarinnar. Nú gefst gönguáhugafólki einstakt tækifæri til þess að ganga á nokkrum af þeirra uppáhalds gönguleiðum sem fáir hafa kynnst.
Flogið er frá Keflavíkurflugvelli með flugfélaginu Play kl. 10:00 og lent á Reina Sofia flugvellinum á suðurhluta Tenerife kl. 16:35. Rútur bíða farþega fyrir utan flugstöðvarbygginguna en þaðan er keyrt í um 40 mín. til höfuðborgarinnar Santa Cruz þar sem dvalið verður á fimm stjörnu hótelinu Mencey. Hótelið er í göngufjarlægð frá líflegum miðbæ borgarinnar, þar sem tilvalið er að fá sér góðan kvöldverð á velvöldu veitingahúsi.
Guajara 2.718 m – Heilsdagsferð – 8,3 km – upphækkun 621 m – 3 – 4 klst.
Gangan hefst í um 2.000 m hæð yfir sjávarmáli í stórbrotnu landslagi þjóðgarðsins El Teide, sem hefur verið settur á heimsminjaskrá UNESCO, en umhverfið einkennist bæði af sérstöku gróðurfari og mikilli litadýrð ólíkra bergtegunda. Gangan hefst á þægilegri upphitun á jafnsléttu en svo hefst uppstig og er heildarhækkun 621 m. Þegar toppurinn hefur verið sigraður blasir við einstaklega fallegt útsýni til allra átta yfir eyjuna fögru m.a. yfir eldfjallið El Teide 3.718 m og nokkrar eyjar í Kanaríeyjaklasanum.
Eftir gönguna er komið við á vínbúgarði, þar sem göngugörpum gefst kostur á að smakka lífrænt ræktað vín þeirra hjóna Donnu og Diego, ásamt því að kynnast kanarískri matarmenningu og sögu vínframleiðslunnar á búgarðinum.
Chamorga – Roque Bermejo – Heilsdagsferð – 8,7 km – upphækkun 667 m – 4,5 klst – hringleið.
Gönguleiðin hefst í hinu afskekkta þorpi Chamorga, sem er staðsett í 478 m hæð yfir sjávarmáli á norðausturhluta Tenerife. Þaðan er gengið niður eftir ægifögru gljúfri, sem einkennist af háum, bröttum og tignarlegum fjöllum og einstöku gróðurfari niður að pínulitlu strandþorpi Roque Bermejo. Í þorpinu, sem er mjög einangrað, býr fólk sem lifir á því sem sjórinn og landið gefur og verður gefin góð stund í að rölta um þorpið og virða fyrir sér stórbrotna ströndina, þar sem hinn tignarlega klett Roque Bermejo má berja augum og flottan vita sem trónir upp á háum tindi ofan við þorpið. Eftir heimsókn í þorpið hefst uppstig, þar sem óviðjafnanlegt útsýni blasir við til allra átta meirihluta leiðarinnar til baka. Eftir gönguna er keyrt sem leið liggur niður til bæjarins San Andrés og stutt stopp gert við Teresitas-ströndina.
Leynileið – Heilsdagsferð – 8,9 km – 574 m upphækkun – 5 klst. – hringleið.
Gönguleið fyrir göngugarpa í leit að ævintýrum. Gengið er frá pínulitlu fjallaþorpi, leyniþorpi, utan í og uppá háa fjallstinda Anaga-skagans, þar sem lárviðarskógur og fjölbreytt gróðurfar einkennir umhverfið og er útsýnið óviðjafnanlegt til allra átta. Leiðin er ekki fjölfarin og á köflum er erfitt að átta sig á hvar stígurinn liggur og fyrir vikið verður hún ævintýralega skemmtileg. Þá er farið í gegnum tvö gömul vatnsgöng, en sú leið fær hárin til að rísa í myrkrinu.
Á frjálsum degi er tilvalið að safna orku og njóta sólar fyrir síðustu göngur ferðarinnar í fallegum sundlaugargarði hótelsins eða á hinni óviðjafnanlegu Teresitas-strönd, sem er að finna í nágrannabæ Santa Cruz. Þá er ekki vitlaust að kíkja í miðbæ borgarinnar sem er skammt frá hótelinu, en þar er að finna sögulegar byggingar og minnisvarða, góða veitingastaði og kaffiteríur auk fjöldann allan af verslunum svo fátt eitt sé nefnt. Nágrannaborgin La Laguna er líka afar falleg og áhugaverð heim að sækja.
Taborno – Afur – Heilsdagsferð – 9 km – lækkun um 700 m – 3 – 4 klst.
Gönguleiðin hefst hjá fallegum útsýnisstað, Pico del Inglés, á toppi Anagaskagans en síðan er gengið í gegnum þéttan regnskóginn, þar sem stórir burknar og lárviðartré með mosavöxnum trjástofnum einkenna leiðina. Þegar komið er út úr skóginum opnast falleg víðátta með tignarlegri fjallasýn í allar áttir og brattur Taborno-kletturinn blasir þar við mest áberandi. Gengið er í átt að klettinum og komið við í litlu þorpi, þar sem húsin standa á hálfgerðum fjallshrygg innan um skógivaxnar hlíðar en þetta þótti kjörinn staður til að búa á m.a. vegna skjólsins við klettinn, þar sem hægt var að fela sig fyrir óvinum. Í dag ríkir róleg stemning yfir þorpinu, þar sem heimamenn rækta m.a. grænmeti og ávexti á gróðurstöllum við ótrúlegar aðstæður í bröttum fjallshlíðum sem ná upp í 900 m hæð yfir sjávarmáli. Frá Taborno er gengið niður í hið afskekkta þorp Afur, sem er staðsett í sannkölluðum ævintýradal, þar sem er að finna rennandi vatn og kvakandi froska en þetta er einn af fáum stöðum eyjarinnar Tenerife þar sem er að finna rennandi vatn allan ársins hring. Toppurinn á ferðinni er svo klárlega heimsókn á 60 ára gamlan bar í bænum, þar sem boðið er upp á tugi ef ekki hundruð tegunda af snöpsum. Rúta sækir hópinn í Afur.
Cruz del Carmen – Heilsdagsferð – 5,5 km – lækkun 390 m – 2 klst.
Hin óviðjafnanlega gönguleið Cruz del Carmen hefst í þéttum og fallegum lárviðarskógi í 953 m yfir sjávarmáli. Leiðin er meira eða minna öll niður á við og á jafnsléttu en byrjað er á að ganga í gegnum þéttan skóg þar sem friðsæld og gróðurilmur fagurgrænnar náttúrunnar umvefur göngugarpinn. Skógarbotninn á það til að vera sleipur og getur því verið ágætt að taka göngustafi með í þessa göngu. Þegar komið er út úr skóginum opnast víðátta og útsýni yfir háar og brattar skógivaxnar hlíðar tignarlegra fjalla Anagaskagans. Á leiðinni má sjá gömul sveitahús, sem minna á gamla tímann þegar heimamenn ræktuðu grænmeti á gróðurstöllum við erfiðar aðstæður í bröttum fjallshlíðunum. Þá er ekki ólíklegt að hópurinn rekist á kanarískar kindur og geitur á leiðinni. Göngunni lýkur í hellabænum Chinamada, sem var fyrst byggður af frumbyggjum eyjarinnar. Í bænum verður boðið til kanarískrar tapasveislu á hellaveitingastað sem grafinn hefur verið inn í berg. Að máltíð lokinni er gengið inn í fjallaþorpið og út á tanga þar sem stórfenglegt útsýni blasir við. Rúta sækir hópinn í Chinamada.
Lagt af stað með rútu frá Mencey hótelinu í Santa Cruz kl. 14:00. Ekið á Reina Sofia flugvöllinn á suðurhluta Tenerife og tekur aksturinn um 40 mínútur. Flogið til Íslands með flugfélaginu Play kl. 17:35 og er áætluð lending á Keflavíkurflugvelli kl. 22:15.
Ofangreind dagskrá er birt með fyrirvara. Tíu þúsund fet áskilja sér rétt til að breyta dagskrá ef á þarf að halda með tilliti til veðurs og annarra aðstæðna, að sjálfsögðu með heill farþega í fyrirrúmi.
Flug:
Farangur:
Hótel:
Fæði:
Akstur
Skoðunarferðir
Fararstjórn
Í nafni náttúrunnar
EKKI INNIFALIÐ