Einu sinni reyndum við að vera venjuleg, það voru erfiðustu 2 mínútur lífsins!

Flugbrautirnar í Keflavík eru tíu þúsund fet og þaðan fljúgum við á vit ævintýranna með þér!

Rún og Trausti stofnuðu Tíu þúsund fet með fátt annað að vopni en sitthvort kreditkortið í vasanum, áratugareynslu og brennandi áhuga á ferðamennsku. Ferðaskrifstofan er fjölskyldufyrirtæki þar sem lögð er áhersla á fjölbreytt úrval framandi ferða út í heim.

Til að komast út í heim þarf í flestum tilvikum að fljúga í gegnum Keflavíkurflugvöll og það er skemmtileg staðreynd að báðar flugbrautirnar eru rúm tíu þúsund fet. Þaðan fær ferðaskrifstofan nafn sitt.

Tíu þúsund fet er ferðafélag sem sérhæfir sig í að bjóða upp á fjölbreyttar skoðunarferðir á ævintýralegar slóðir, þar sem ferðamaðurinn upplifir allt það besta sem hver viðkomustaður hefur uppá að bjóða, þar sem fjölbreytni og framandi upplifun er sett í fyrirrúm. Í öllum sérferðum eru reynslumiklir fararstjórar með mikla þekkingu á öllu sem viðkemur ferðamennsku. Hjá Tíu þúsund fetum er kappkostað við að bjóða upp á vandaðar ferðir og vel staðsett góð hótel. Tíu þúsund fet fá vonandi sem flesta til að fara út fyrir þægindarammann sinn þegar ferðalög eru annars vegar og hika ekki við að fara á framandi slóðir, helst með alla fjölskylduna.

Vissir þú þetta um tíu þúsund fet?

  • Lengd flugbrautanna í Keflavík er tíu þúsund fet og það er ávallt gaman að fara þessi tíu þúsund fet í ferðum með Tíu þúsund fetum.

  • Vinnuregla flugmanna er sú að undir tíu þúsund fetum sé óheimilt að ræða saman um nokkuð annað en það sem tengist starfi þeirra og fluginu.

  • Það tekur um 60 sekúndur fyrir manneskju í frjálsu falli að falla um tíu þúsund fet, sé fallhlíf ekki opnuð.

  • Tíu þúsund fet eru mikilvægur áfangi í flugi. Áður en þeirri hæð er náð má ekkert trufla athygli flugmanna í flugstjórnarrýminu en í tíu þúsund fetum er talið að vélin sé komin í örugga hæð.

  • Glæsilegt vænghaf hafarna gerir þeim kleift að fljúga í svimandi hæð! Ernir geta svifið tíu þúsund fet upp í loftið og spara þannig orku fyrir mikilvægari athafnir, eins og að leita að bráð og flytja langar vegalengdir.

  • Þegar flugvél er komin í tíu þúsund feta hæð er hún talin vera í öruggri hæð, þar sem hættan á truflunum minnkar verulega og gerir farþegum kleift að nota rafeindatæki sín.

  • Hljómsveitin Tíu þúsund fet (e. Ten Thousand Feet) var stofnuð árið 2006 og þekktasta lagið þeirra er líklega I See Stars sem kom út árið 2012. Um leið og við vonumst til þess að þið sjáið stjörnur í ferðunum okkar erum við ekki sannfærð um að allir hrífist af tónlist sveitarinnar.

  • Tíu þúsund fet jafngilda u.þ.b. 3 kílómetrum sem er vegalengdin í svokölluðu skemmtiskokki. Það á vel við því eigendur Tíu þúsund feta hvetja til daglegrar hreyfingar og leggja áherslu á skemmtilegheit í öllum ferðum.

  • Á árunum eftir seinna stríð tók það sjö klukkutíma að fljúga á milli Íslands og Kaupmannahafnar og flogið var í um tíu þúsund feta hæð með 50-60 farþega.

  • Tíu þúsund fet er sú hæð sem fallhlífastökkvarar miða oft við þegar þeir henda sér út í óvissuna. Flestir farþegar stíga rólega inn í flugvél en ef þeim yrði tilkynnt að vélin yrði opnuð í tíu þúsund fetum þá myndu líklega einhverjir ókyrrast.

  • Síðast en ekki síst þá er smokkurinn tíu þúsund sinnum öruggari til að koma í veg fyrir smit eða getnað en nokkur önnur getnaðarvörn. Við vitum að þetta tengist ekki beint ferðalögum, að öðru leyti en því að við stundum mjög ábyrga ferðamennsku. Jú og stærsti smokkur í heimi er reyndar 360 fet í ummál.

Yfirheyrsla

Hvað er mikilvægast fyrir farþega að vita um þig, Rún? Það er að vita hverra manna ég er. Það er líka algengasta og skemmtilegasta spurningin á öllum ferðalögum, þar sem hún tengir fólk oft og iðulega saman. En svo ég svari spurningunni þá var Matthías Jochumsson langalangafi minn, finnst ekkert leiðinlegt að segja frá því!

Hver eru eftirminnilegustu ferðalögin þín? Mér finnst erfitt að gera upp á milli margra ferðalaga en þeir staðir sem standa uppúr eru án efa, Machu Picchu í Perú, saltslétturnar í Bólivíu, Amazon í Brasilíu, Iguazu-fossarnir í Argentínu, pýramídarnir í Egyptalandi, Denali-þjóðgarðurinn í Alaska, The Narrows gönguleiðin í Utah, ganga í Miklagljúfri í Arizona, ferð um sveitir Kúbu á gömlum Chevrolet blæjubíl, Bob Marley safnið á Jamaíka, Taj Mahal í Indlandi og apaheimsókn á Gíbraltar. Ég veit að ég er að gleyma einhverju!

Hver eru skemmtilegustu ferðalögin? Göngu- og skíðaferðir með fjölskyldunni eða með góðum vinum. Ferðir í náttúrunni eru einfaldlega bestar!

Hver er erfiðasta upplifun þín á ferðalagi? Að horfa upp á fátækt í löndum eins og Brasilíu, Dóminíska lýðveldinu, Indlandi og Egyptalandi. Eins tók heimsókn í Alcatraz fangelsið í San Francisco og fangabúðirnar í Auschwitz og Birkenau verulega á. Ég þarf líka alltaf að hafa mig alla við þegar ég fer í hellaheimsóknir. Einu sinni fylgdu fætur ekki huga og þá lét ég nægja að horfa á eftir fjölskyldunni fara niður um 8 hæðir ofan í þorp grafið niður í jörðu í Tyrklandi..

Hefur þú fundið fyrir kvíða á ferðalagi? Já, þegar við fjölskyldan ákváðum að fara með Cessna-vél á bjarnarslóðir í Alaska. Flugum í mikilli ókyrrð sem endaði með því að flugstjórinn treysti sér ekki til að lenda vélinni. Ég þarf því að fara aftur einhvern tímann seinna og er strax komin með kvíðahnút yfir því, þ.e. flugferðinni! Einnig viðurkenni ég að hafa verið með smá kvíðahnút í skógargöngu með fjölskyldunni í Alaska, þar sem við vorum með bjarnarsprey að vopni! Ég var ósköp fegin að mæta ekki birni í þeirri ferð.

Hvaða ferðamáti finnst þér skemmtilegastur í útlöndum? Fætur í Perú, húsbíll í Alaska, vespur á Ítalíu, hjól á saltsléttum Bólivíu, kanó í Brasilíu og kajak í Púertó Ríkó.

Hefur þú fundið fyrir hræðslu á ferðalagi? Já, í borginni Salvador í Brasilíu, þar sem strætóbílstjóri bjargaði hugsanlega lífi mínu og Trausta, en við vorum stödd á hættulegum slóðum án þess að átta okkur á því. Strætisvagnabílstjóri stöðvaði með öðrum orðum vagninn við gangstétt þar sem við vorum á rölti um fáfarna götu og skipaði okkur að fara upp í vagninn og hleypti okkur ekki út fyrr en hann taldi svæðið óhætt ferðamönnum.

Hver rosalegasta borg sem þú hefur heimsótt? Las Vegas!

Hvað er mikilvægast fyrir farþega að vita um þig, Tanja Líf? Ég er algjör heimsborgari! Tala fimm tungumál, hef búið á átta mismunandi stöðum í heiminum og verið í sjö skólum… nei, það truflaði mig ekki neitt, ég elska að hafa kynnst fólki víðsvegar að úr heiminum. Nú hef ég í mörg hús að venda víðsvegar um heiminn. Ég er leikkona að mennt en ólst upp við fararstjórn síðan ég fæddist og starfaði sem slíkur í mismunandi löndum á seinni árum.

Hver eru eftirminnilegustu ferðalögin þín Menningarsjokkið á Indlandi. Húsbílaferðalagið innan um birni í Alaska. Ferðalag um alla vesturströnd Bandaríkjanna.

Hver eru skemmtilegustu ferðalögin? Skíðin eru alla vega mjög hátt skrifuð á þeim lista. En svo eru skemmtilegustu ferðalögin þau sem innihalda skemmtilega ferðafélaga, ævintýri, upplifun á menningu heimamanna í hverju landi fyrir sig og mismunandi matur. Síðan er siglingin á skemmtiferðaskipinu, sem ég fór í sumarið 2023 alveg á topp 10 listanum!

Hver er erfiðasta upplifun þín á ferðalagi? Ætli það sé ekki að sjá alla fátæktina í þriðju ríkjum heims eins og í Indlandi.

Hefur þú fundið fyrir kvíða á ferðalagi? Já í öllum flugunum, sem ég þurfti að fara í, á meðan COVID19 var í hámarki. En ég stundaði nám í Listaháskóla Barcelona á þeim tíma og reyndi mikið á í fríum að komast heim og eins að komast aftur til Barcelona í tæka tíð áður en skólinn hófst. Fékk alltaf massívan kvíðahnút í magann að vera ekki leyft að komast heim til fjölskyldunnar eða þá að ég kæmist ekki aftur út í skólann á réttum tíma.

Hvaða ferðamáti finnst þér skemmtilegastur í útlöndum? Skemmtiferðaskip, húsbíll og vespur.

Hefur þú fundið fyrir hræðslu á ferðalagi? Nei, ekki svo ég muni til. Nema þá bara svona rétt á meðan ég er að hlaupa á 100 km hraða til að ná tengiflugi því fyrra fluginu seinkaði rosalega hehe.

Hver er rosalegasta borg sem þú hefur heimsótt? Las Vegas klárlega, algjör sturlun.

Hvað er mikilvægast fyrir farþega að vita um þig, Trausti?  Hvort að farþegunum finnist það mikilvægt verður hver og einn að dæma fyrir sig en mér finnst mikilvægt að það komi fram að sem ungur maður æfði ég ballet, fótbolta og skíði og vil sjálfur meina að ég hafi verið ótrúlega góður í þessu öllu. Þá er ég líka svakalegur söngvari enda eini eigandi Tíu þúsund feta sem hefur sigrað söngvakeppni! 

Hver eru eftirminnilegustu ferðalögin þín? Ég mun aldrei gleyma því þegar við fjölskyldan fórum siglandi út á ljósavatnið í Púertó Ríkó á kanóum. Það gerðum við að næturlagi og þessari siglingu gleymi ég aldrei á meðan ég lifi, þar sem vatnið glóði þegar ár var strokið rétt undir yfirborð þess. Þá fannst mér líka geggjað að ganga í ánni upp Narrows gljúfrið í Arizona, meiriháttar upplifun og stórsigur.

Hver eru skemmtilegustu ferðalögin? Ég gjörsamlega elska skíðaferðir og við förum árlega í 1-2 slíkar því það er fátt sem toppar frelsið í fjöllunum. Í mínum huga eru allar skemmtilegustu ferðirnar þær sem við höfum farið með stelpunum okkar, ekki síst þær sem við höfum farið saman á framandi slóðir. 

Hver er erfiðasta upplifun þín á ferðalagi? Fyrst í hugann kemur þegar ég fór til austurstrandar Grænlands og upplifið vonleysið í samfélaginu. Hvergi sá ég neista í augum barnanna og vandamálin blöstu við í þorpunum. Þá brá mér að ferðast um í mannhafi Indlands og ekki síður að koma úr þeirri ferð og fara þá með stelpurnar okkar beint í hina furðulegu veröld Euro Disney í Frakklandi. Já, og ég gleymi því líka seint þegar ég var étinn lifandi af moskítóflugum á Amazon-fljótinu! 

Hefur þú fundið fyrir kvíða á ferðalagi? Ég er sjaldan kvíðinn á ferðalögum en viðurkenni þó að mér stóð alls ekki á sama þegar við fórum á krókódílaveiðar á kanó í Amazon-fljótinu í Brasilíu. Ég var líka pínu kvíðinn yfir því að þurfa japla öll þessi kókalauf í Perú áður en við gengum til Machu Picchu. 

Hvaða ferðamáti finnst þér skemmtilegastur í útlöndum? Ég elska að ferðast um á vespum og mótorhjólum þegar ég er í útlöndum. Þá hafði ég mjög gaman af húsbílaferðalaginu í Alaska, mjög skemmtilegur ferðamáti. Annars hef ég oftast mjög gaman af því að ferðast um í útlöndum á tveimur jafnfljótum um óbyggðir og fagra náttúru. 

Hefur þú fundið fyrir hræðslu á ferðalagi? Já, ég man eftir því að hafa orðið hræddur þegar við vorum með stelpurnar okkar í Cappadocia í Tyrklandi og fórum þar í gönguferð eftir fallegu gili. Allt í einu sjáum við úlf koma hlaupandi niður hlíðina í áttina að okkur og ég held að fjölskyldan hafi aldrei hlaupið eins hratt, hvorki fyrr né síðar, en á flóttanum undan dýrinu. Talandi um dýr, þá var ég líka skelkaður þegar ég strauk risastórum krókódílum í Gambíu. 

Hver er rosalegasta borg sem þú hefur heimsótt Furðulegasta borgin af þeim öllum er líklega Las Vegas. Þar var ég einfaldlega í menningarsjokki allan tímann.

 

Nennir þú að lesa meira?

25 ára reynsla!
Eigendur  Tíu þúsund feta, hjónin Rún og Trausti, hafa starfað við margs konar ferðaþjónustu í 25 ár ásamt því að ferðast um víða veröld. Þau hafa m.a. séð um að taka á móti hundruð ferðamanna í viku hverri og séð um að þeir upplifi allt það besta sem áfangastaðir eins og Tenerife, Marokkó, Egyptaland, Rimini, Marmaris, Costa del Sol, Gran Canaria, Lanzarote, Fuerte Ventura, La Gomera, Krít og Rodos hafa uppá að bjóða. Tanja Líf er dóttir þeirra og hefur fylgt þeim í gegnum flest þessara ferðalaga frá unga aldri.  Hún hefur starfað sem ferðaráðgjafi og fararstjóri.

Tugir sérferða!
Þau hafa séð um tugi sérferða til ýmissa landa og borga eins og Gambíu, Aþenu, Prag, Feneyja, Sorrento, Zagreb, Kairó, Flórens, Marrakesh, Gíbraltar og víðar.

Tugir gönguleiða!
Gönguferðir eru líka þeirra ær og kýr og hafa þau m.a. gengið um og yfir fimmtíu gönguleiðir á Tenerife með hinum ýmsum gönguhópum m.a. í gönguhópum með heimamönnum, ásamt því að hafa gengið með hópa á Ítalíu og gengið sjálf á framandi slóðum í Brasilíu, Bólivíu, Perú og Bandaríkjunum.

Framandi ferðir!
Þá hafa þau farið um víða veröld og kappkostað við það að fara á framandi slóðir og kynnast sem best menningu og sögu hvers áfangastaðar með áhugaverðum og skemmtilegum hætti, t.d. farið í húsbílaferðir, vespuleiðangra, jeppasafarí, gönguferðir, skíðaferðir og kanósiglingar. Þetta eru ferðir á slóðir eins og Grænland, Alaska, Utah, Arizona, Nevada, Kalifornía, Mexíkó, Perú, Bólivía, Argentína, Brasilía, Amazon-skógarnir í Brasilíu, Indland, Kúba, Jamaíka, Dóminíska Lýðveldið, Púertó Ríkó og Tyrkland svo fátt eitt sé nefnt.

Íslenskar fjallageitur!
Fjölskyldan hefur líka einstaklega gaman af að ferðast á Íslandi og þá einna helst fótgangandi um fjöll og firnindi en hún þekkir m.a. nánast hverja þúfu og hvern hól á Borgarfirði eystri og nágrenni.

12 ár á Tenerife!
Fjölskyldan bjó í 12 ár á Tenerife og störfuðu Rún og Trausti þar fyrir ferðaskrifstofuna Heimsferðir á árunum 2008 til 2020 og lögðu grunn að vinsældum eyjarinnar meðal íslenskra ferðalanga. Þau héldu úti facebook-síðunni ,,Fararstjórarnir”, þar sem finna má ítarlegar upplýsingar um allt sem snýr að Tenerife ásamt fjölda umsagna frá farþegum um skoðunarferðir og störf þeirra þar. Tanja Líf starfaði einnig sem fararstjóri á Tenerife nokkur sumur.

Fjölbreyttar skoðunarferðir!
Rún, Trausti og Tanja Líf leggja upp úr því að vera vandvirk og ábyrg í öllu sem þau taka sér fyrir hendur og er þeim umhugað um að ferðamönnum líði ávallt sem best. Þau eru líka hress og kát og hafa gaman af að starfa með fólki og sjá til þess að allir skemmti sér sem best hverju sinni. Þá hafa þau ávallt lagt áherslu á fjölbreytileika og hafa haft gaman af að skapa og búa til skoðunarferðir á nýja viðkomustaði.

Víðtæk reynsla!
Fyrir utan ferðaþjónustu eru Rún og Trausti bæði kennaramenntuð. Einnig hafa þau starfað við rekstrarstjórn, fréttastjórn, fjölmiðlun og spilaútgáfu og hafa sótt ótal námskeið í gegnum störf sín og áhugamál og eru bæði spænskumælandi. Þá eru þau mikið fjölskyldufólk, eiga tvær uppkomnar dætur og þeirra bestu stundir eru á ferðalögum með þeim. Tanja Líf er menntuð leikkona og hefur starfað við fararstjórn bæði hérlendis og erlendis, ferðaráðgjöf hjá Vita, kennslu leiklistar og við ýmis leiklistarverkefni.

Við hlökkum til að heyra frá þér!

 

Tíu þúsund fet

kt. 590923-1410
Vsk númer 150509
[email protected]
Sími 888 2929