Endurnærandi heilsuferð á Gran Canaria sem mun hafa frábær áhrif á heilsu þína og líðan, bæði andlega og líkamlega. Þetta er ferð fyrir alla þá sem vilja setja sjálfa sig í fyrsta sæti og njóta 4* glæsilegrar gistingar í strandbæ á eyjunni fögru. Hótelið er sniðið til að njóta hvíldar og vellíðunar þannig að farþegar okkar nái góðri núvitund, auknu heilbrigði, góðum svefni, meiri orku, innri kyrrð, bættu matarræði og losni við streitueinkenni.
Sól og blíða, núllstilling og heilsurækt í 8 daga, er það ekki eitthvað?
Heilsurækt huga, líkama og sálar til Kanarí er endurnærandi heilsu- og lífstílsnámskeið og upplifun þar sem Unnur Pálmarsdóttir stýrir fjölbreyttri dagskrá sem inniheldur skemmtilegar og fjölbreyttar æfingar og fyrirlestra sem endurhlaða líkama, vellíðan og sál.
Í ferðinni er lögð áhersla á að njóta líðandi stundar, núllstilla hugann, minnka streituna og lifa í núinu, njóta lífsins, stunda heilsurækt undir berum himni, pílates, jóga, gönguferðir, dans, fyrirlestrar, skoðunarferðir um eyjuna fögru og sameiginlegt borðhald í lok ferðarinnar. Unnið er með hvernig hægt er byggja upp líkama og sál án streitu og andlegs álags.
Allir eru velkomnir í þessa ferð. Þú þarft ekki að hafa stundað áður pílates, jóga, heilsurækt eða aðra hreyfingu til að geta komið með. Ferðin er upplögð fyrir þá sem hafa lent í kulnun á vinnustað og eru að vinna sig frá streitu og vilja endurhlaða orku líkama og sálar.
Tilgangur ferðarinnar er að fræðast um bætt lífsgæði, stunda heilsurækt og líkamsrækt undir berum himni ásamt því að læra aðferðir til að minnka streitu í lífi og starfi.
Unnið er með hvernig hægt er byggja upp líkama og sál án streitu og andlegs álags. Ferðin er upplögð fyrir þá sem hafa lent í kulnun og eru að vinna sig frá streitu og vilja núllstilla sig.
Fyrirlestrar eru fræðandi og fjalla um bætta heilsu og vellíðan.
Ferðin er fyrir alla aldurshópa, heilsuræktarunnendur og einnig þá sem hafa greinst með slit- og vefjagigt.
Fjöldi stéttarfélaga veita styrki til félagsmanna sinna fyrir námskeiðum, fræðslu og heilsurækt. Kynntu þér þín réttindi, kannaðu styrkveitingar sem þitt stéttarfélag veitir og athugaðu hvort það sé fyrir þessa ferð.
Gran Canaria
Gran Canaria er kölluð „mini-álfan“ vegna fjölbreytilegs loftslags og landslags eyjarinnar. Einn þriðji hluti hennar tilheyrir verndarsvæði UNESCO. Þar má finna langar og fallegar strendur ýmist með gulum eða svörtum sandi, gróðursæl svæði og iðagræna skóga, lítil sjávar- og fjallaþorp, litla bæi og hina skemmtilegu stórborg Las Palmas með um 390.000 íbúa.
Það er nánast hægt að draga línu um eyjuna miðja, þar sem suðurhluti eyjarinnar er gróðurlítill nema þar sem ræktun er stunduð. Á meðan norðurhluti eyjarinnar er mun gróðursælli, þar sem m.a. ávextir og grænmeti eru ræktuð í meira mæli og Kanaríeyjafuran áberandi upp til fjalla.
Veðurfar á eyjunni er einnig breytilegt eftir landshlutum og getur hitamunur verið þó nokkur á milli strandsvæða og fjalllendis. Einnig ríkir rakara loftslag á norðurhlutanum, á meðan sólríkara er á suðurhluta eyjarinnar. Annars ríkir stöðugt veðurfar á eyjunni og er það talið vera eitt af þeim bestu á heimsvísu, þar sem meðalhiti er nokkuð jafn allt árið um kring. Þó er aðeins svalara loftslag á veturna, þá einkum á kvöldin og á nóttunum.
Enska ströndin eða Playa del Inglés býður upp á sól og sand á daginn og fjör á kvöldin, en svæðið er stærsti áfangastaður Gran Canaria eyjarinnar og sömuleiðis einn af vinsælustu sumarleyfisstöðum Spánar. Áfangastaðurinn var reistur á sjöunda áratug síðustu aldar á eyðilandi en er í dag þekktur um alla Evrópu og viðkomustaður fjölda ferðamanna á hverju ári.
Svæðið einkennist af stórum hótelum, verslunarmiðstöðvum, skyndibitastöðum og líflegum miðbæ með mörkuðum og verslunum, þar sem er hægt að kaupa allskonar varning, góðum veitingastöðum, þar sem boðið er upp á fjölbreytt úrval af ljúffengum alþjóðlegum réttum.
Maspalomas er svæðið sem nær til sumarleyfisstaðanna Águila, Las Bussas, San Agustín og Playa del Inglés (Ensku strandarinnar). Þetta er dásamleg 17 km löng strandlengja með sandöldum, breiðum sandströndum, grunnum og tærum sjó og yndislegu hitabeltisloftslagi allt árið um kring. Því er svæðið sannkölluð paradís fyrir sóldýrkendur og fjölskyldur sem elska frí við sjávarsíðuna.
Hverfið í kringum stærsta golfvöllinn á svæðinu er aðskilið frá Ensku ströndinni með 400 hekturum af stórbrotnum sandöldum sem hafa verið þjóðgarður frá árinu 1994. Einungis er hægt að komast yfir þjóðgarðinn fótgangandi eða á kameldýri en hvort um sig fær þig til að líða eins og þú sért kominn í ævintýraheim.
Eyðimörkin er vettvangur fjölmargra sjaldgæfra plöntutegunda sem sumar finnast eingöngu á Kanaríeyjum. Einhvern veginn ná þær að þrífast í þessu þurra og hrjóstruga umhverfi ásamt eðlum og kanínum. Hluti af sandöldusvæðinu er fjölsótt nektarnýlenda þannig að gott er að hafa það í huga þegar gengið er um svæðið.
Miðvikudagurinn 15. október – Ferðadagur – Kynningarfundur
Flogið er frá Keflavíkurflugvelli með flugfélaginu Play og er áætluð brottför kl. 8:55 og lending á alþjóðaflugvellinum á Gran Canaria kl. 15:40. Fararstjóri ferðast með hópnum út og fer með honum heim á hótel með rútu sem bíður hópsins fyrir utan flugstöðvarbygginguna.
Á milli klukkan 17:15 og 18:15 mun Unnur Pálmarsdóttir, fararstjóri, bjóða upp á kynningarfund í hótelgarðinum, þar sem hún mun fara yfir dagskrá ferðarinnar.
Fimmtudagurinn 16. október
7:30 – 10:30 Morgunverður.
8:30 – 9:30 Fusion pílates og jóga.
11:00 – 12:00 Fyrirlestur „Heilsurækt huga, líkama og sálar“.
12:15 – 13:15 Vettvangsferð um svæðið. Unnur fer með hópinn í góða göngu og niður að Dunas sandöldunum sem friðaðar eru af UNESCO.
17:15 – 18:00 Styrktarþjálfun og skemmtun í tækjasal og utandyra á hótelinu.
19:00 – 21:00 Sameiginlegur kvöldverður fyrir hópinn. Nánari upplýsingar veitir fararstjóri á staðnum. Kostar aukalega.
Föstudagurinn 17. október – Frjáls dagur – Sigling frá Puerto de Mogán 8:45 – 15:00
Valfrjáls dagskrá – kostar aukalega – bókanir hjá fararstóra
Eftir morgunverð verður hópurinn sóttur heim á hótel kl. 8:45 og er ferðinni heitið til hins fallega strand- og hafnarbæjar Puerto de Mogán. Gengið verður í gegnum skemmtilegan markað og niður að höfninni, þar sem hjónin Marta og Ruben taka á móti hópnum og bjóða hann velkominn um borð í Yellow Boat. Farið verður í dásamlega siglingu með þeim, borðaður góður matur, synt í sjónum og notið fagurs umhverfis.
Um borð í bátnum eru þægileg sæti og borð fyrir alla og fyrir þá sem vilja snorkla, þá er boðið upp á græjur til þess. Siglt er meðfram ströndinni að sveitaþorpinu Tasarte en á leiðinni má sjá fagurt klettabelti með litskrúðugum jarðlögum. Þaðan er snúið við og siglt að El Perchel víkinni sem er aðeins hægt að komast að frá sjó. Þar er hægt að fara í sjóinn og snorkla en sjórinn er einstaklega tær á þessu svæði. Við víkina eru bornar fram léttar veitingar, tapas-réttir og drykkir eru í boði alla ferðina. Sannkölluð sæluferð!
Skráning og frekari upplýsingar hjá fararstjóra í ferðinni.
Laugardagur 18. október
7:30 – 10:30 Morgunverður.
10:00 – 11:30 Morgunganga niður að Faro vitanum að ströndinni á Maspalomas meðfram Dunas sandöldunum.
11:30 – 12:30 Jóga og núvitund á Maspalomas ströndinni.
12:30 – 14:00 Hádegisverður á góðum veitingastað á Meloneras. Kostar aukalega.
Frjáls tími það sem eftir lifir dags, tilvalið að njóta sólarinnar
Sunnudagurinn 19. október – Frjáls dagur
7:30 – 10:30 Morgunverður
Það er einstaklega gaman að ferðast um og skoða Gran Canaria. Í því samhengi er upplagt að skella sér til höfuðborgarinnar Las Palmas eða til Firgas, Amadores eða Puerto Rico. Fararstjóri getur gefið frekari upplýsingar um fjölbreytta afþreyingu á eyjunni.
Mánudagurinn 20. október
7:30 – 10:30 Morgunverður
8:30 – 9:30 Fusion pílates og jóga
11:00 – 12:00 Fyrirlestur ,,Hamingjan í lífi og starfi”
12:15 – 13:00 Styrktarþjálfun í tækjasal og góðar teygjur
19:00 – 20:30 Kvöldganga að Dunas Maspalomas sandöldunum, þar sem við horfum á sólina setjast. Upplifun sem er yndisleg og engin má missa af.
Þriðjudagurinn 21. október
7:30 – 10:30 Morgunverður
8:30 – 9:30 Fusion pílates og jóga
11:00 – 12:00 Fyrirlestur ,,Sjálfstraust & sigurvissa”.
12:00 – 13:00 Stöðvaþjálfun í tækjasal og teygjur
18:30 – 22:00 Lokahóf fyrir hópinn. Kvöldverður og gleði á vel völdum veitingastað á Meloneras svæðinu við ströndina. Nánari upplýsingar veitir fararstjóri á staðnum. Kostar aukalega.
Miðvikudagurinn 22. október – Hreyfing – ferðadagur
7:30 – 10:30 Morgunverður
8:30 – 9:00 Fusion pílates og jóga fyrir flugið
Eftir endurnærandi heilsuferð Unnar, verður hópurinn sóttur heim á hótel og keyrður út á flugvöll, þar sem áætlað flug með flugfélaginu Play er kl. 16:40 og lending á Keflavíkurflugvelli kl. 21:25.
Nánari tímasetning um rútuferðina gefur fararstjóri.
Athugið að dagskráin getur breyst án fyrirvara.
Þátttaka í dagskrá er frjáls og ekki er skyldumæting.
,,Ég mæli heilshugar með heilsuferð Unnar – Heilsurækt hugs, líkama & sálar til Kanarí. Það er allt mjög vel skipulagt og því áreynslulaust að njóta alls þess sem er í boði og hver og einn velur sér. Það er yndislegt að byrja alla daga á Fusion Pilates og jóga, njóta góðra fyrirlestra, tengjast öðrum í hópnum á yndislegu hóteli og dásamlegu umhverfi. Þessi ferð er algjörlega fyrir alla, hvort sem þú ert ein eða með vinkonum/vinum. Ég kom ein í ferðina og leið vel allan tímann því Unnur er einstök í því að passa uppá hópinn sinn. Ég fer pottþétt aftur í heilsuferð með Unni.“
Sigríður Jónsdóttir, sérfræðingur í stefnumótun og verkefnastjórnun.
,,Ég fór með Unni í ferðina Heilsurækt huga, líkama og sálar til Kanarí í viku í október 2024. Ferðin var dásamleg og dagskráin fjölbreytt og skemmtileg. Það var ekkert mál að skala æfingarnar eftir sínu höfði svo allir sem vildu gátu tekið þátt. Þrátt fyrir skemmtilega dagskrá var líka nægur frítími inn á milli til að hvílast. Hótelið, starfsfólkið og aðstaðan var til fyrirmyndar til að slaka á og njóta líðandi stundar. Að byrja alla daga á Fusion Pilates og hugleiðslu úti við sólarupprás var engu líkt. Dagsferðin til Mogán kom mjög á óvart en bærinn er svo fallegur og það var þvílík upplifun að koma þangað og eyða deginum við höfnina. Ég kom endurnærð til baka eftir algjöra slökun í heila viku. Ég get mælt heilshugar með þessari ferð og Unnur auðvitað frábær farastjóri.“
Sigurlaug Sara Gylfadóttir, nemandi í MSc Mannauðsstjórnun og verkefnastjóri
,,Ég mæli heilshugar með ferðinni Heilsurækt huga, líkama og sálar með Unni. Ferðin var frábær í alla staði. Vel undirbúin fjölbreytt og skemmtileg. Æfingarnar hentuðu öllum og ekkert betra en að byrja daginn á fusion pilates og hugleiðslu í dásamlegu umhverfi.Hótelið, starfsfólkið og aðstaðan var til fyrirmyndar. Nægur frítími til njóta og skoða sig um. Ferðin var endurnærandi, félagsskapurinn dásamlegur og Unnur frábær fararstjóri.“
Magnea Davíðsdóttir, skjalastjóri Héraðssaksóknara og Bókasafns- og upplýsingafræðingur
Ert þú til í heilsufrí, þar sem hvíld, hreyfing, mataræði og fræðsla eru í fyrirrúmi? Þá er þetta rétta ferðin fyrir þig!
Bull Vital Suites & Spa Boutique Hotel
Við gistum á hinu glæsilega hóteli Bull Vital Suites & Spa Boutique Hotel sem er góð 4ra stjörnu gisting staðsett fyrir ofan Maspalomas golfvöllinn. Hótelið hentar vel fyrir golfiðkendur og alla sem vilja hafa rólegheit í fyrirrúmi.
Hótelið er vel staðsett á Maspalomas svæðinu nálægt Dunas sandöldunum frægu. Stutt er í alla þjónustu á Ensku ströndinni og eru veitingastaðir og barir í næsta nágrenni.
Á hótelinu eru notalegar og rúmgóðar svítur. Í svítunum er svefnherbergi með hjónarúmi og svefnsófa í stofu. Svíturnar eru allar með svölum eða verönd, þær eru loftkældar með 2 flatskjám, síma, litlum ísskjáp, hárþurrku og öryggishólfi (gegn gjaldi).
Frítt þráðlaust net er á hótelinu.
Garðurinn er suðrænn og gróskumikill, með góðri sólbaðsaðstöðu. Heilsulind hótelsins er glæsileg með sundlaugum og gufum. Einnig er hægt að fara í margs konar líkamsmeðferðir og snyrtistofa er einnig á sama stað. Það er gestum að kostnaðarlausu að fara í heilsulind hótelsins. Á hótelinu er líkamsræktarsalur sem er fyrir alla hótelgesti.
Ef þú ert í leit að slökun, vellíðan, aukinni orku, bættum svefni og hreinna matarræði þá erum við með réttu ferðina og fullkomið hótel fyrir þig.
Vinsamlega athugið að ljósmyndir af gististöðum, sem birtar eru á heimasíðu Tíu þúsund feta, eru fengnar frá gististöðunum. Þær eru aðeins til þess að gefa hugmynd um útlit þeirra. Tíu þúsund fet bera ekki ábyrgð á því ef eitthvað hefur breyst á gististöðunum frá því að ljósmyndir voru teknar. Tíu þúsund fet stjórna ekki staðsetningu farþega innan gististaða. Athugið einnig að gististaðir geta breyst en þá er ávallt boðið upp á sambærilega gististaði eða betri.
Unnur Pálmarsdóttir er einn reyndasti hóptímakennari og þjálfari landsins. Hún hefur kennt í hóptímum og þjálfað landsmenn í yfir 35 ár. Hún er með MBA gráðu frá H.Í., diplómanám í mannauðsstjórnun og M.Sc. gráðu í mannauðsstjórnun. Síðustu árin hefur Unnur einnig unnið sem fararstjóri í Riga, Gdansk, Mallorca, Alicante og Kanarí og nýtur þess að fara með hópa um heim allan.
Einkunnarorð Unnar eru gleði, hamingja og við eigum aðeins einn líkama. Því er mikilvægt að huga vel að líkama og sál.
Flug:
Farangur:
Hótel:
Fæði:
Akstur
Fararstjórn
Í nafni náttúrunnar
EKKI INNIFALIÐ