Hvað er mikilvægast fyrir farþega að vita um þig?
Hvort að farþegunum finnist það mikilvægt verður hver og einn að dæma fyrir sig en mér finnst mikilvægt að það komi fram að sem ungur maður æfði ég ballet, fótbolta og skíði og vil sjálfur meina að ég hafi verið ótrúlega góður í þessu öllu. Þá er ég líka svakalegur söngvari enda eini eigandi Tíu þúsund feta sem hefur sigrað söngvakeppni!
Hver eru eftirminnilegustu ferðalögin þín?
Ég mun aldrei gleyma því þegar við fjölskyldan fórum siglandi út á ljósavatnið í Púertó Ríkó á kanóum. Það gerðum við að næturlagi og þessari siglingu gleymi ég aldrei á meðan ég lifi, þar sem vatnið glóði þegar ár var strokið rétt undir yfirborð þess. Þá fannst mér líka geggjað að ganga í ánni upp Narrows gljúfrið í Arizona, meiriháttar upplifun og stórsigur.
Hver eru skemmtilegustu ferðalögin?
Ég gjörsamlega elska skíðaferðir og við förum árlega í 1-2 slíkar því það er fátt sem toppar frelsið í fjöllunum. Í mínum huga eru allar skemmtilegustu ferðirnar þær sem við höfum farið með stelpunum okkar, ekki síst þær sem við höfum farið saman á framandi slóðir.
Hver er erfiðasta upplifun þín á ferðalagi?
Fyrst í hugann kemur þegar ég fór til austurstrandar Grænlands og upplifið vonleysið í samfélaginu. Hvergi sá ég neista í augum barnanna og vandamálin blöstu við í þorpunum. Þá brá mér að ferðast um í mannhafi Indlands og ekki síður að koma úr þeirri ferð og fara þá með stelpurnar okkar beint í hina furðulegu veröld Euro Disney í Frakklandi. Já, og ég gleymi því líka seint þegar ég var étinn lifandi af moskítóflugum á Amazon-fljótinu!
Hefur þú fundið fyrir kvíða á ferðalagi?
Ég er sjaldan kvíðinn á ferðalögum en viðurkenni þó að mér stóð alls ekki á sama þegar við fórum á krókódílaveiðar á kanó í Amazon-fljótinu í Brasilíu. Ég var líka pínu kvíðinn yfir því að þurfa japla öll þessi kókalauf í Perú áður en við gengum til Machu Picchu.
Hvaða ferðamáti finnst þér skemmtilegastur í útlöndum?
Ég elska að ferðast um á vespum og mótorhjólum þegar ég er í útlöndum. Þá hafði ég mjög gaman af húsbílaferðalaginu í Alaska, mjög skemmtilegur ferðamáti. Annars hef ég oftast mjög gaman af því að ferðast um í útlöndum á tveimur jafnfljótum um óbyggðir og fagra náttúru.
Hefur þú fundið fyrir hræðslu á ferðalagi?
Já, ég man eftir því að hafa orðið hræddur þegar við vorum með stelpurnar okkar í Cappadocia í Tyrklandi og fórum þar í gönguferð eftir fallegu gili. Allt í einu sjáum við úlf koma hlaupandi niður hlíðina í áttina að okkur og ég held að fjölskyldan hafi aldrei hlaupið eins hratt, hvorki fyrr né síðar, en á flóttanum undan dýrinu. Talandi um dýr, þá var ég líka skelkaður þegar ég strauk risastórum krókódílum í Gambíu.
Hver rosalegasta borg sem þú hefur heimsótt?
Furðulegasta borgin af þeim öllum er líklega Las Vegas. Þar var ég einfaldlega í menningarsjokki allan tímann.