Ertu að útskrifast eða ertu með lítinn hóp sem langar hreinlega bara að gera eitthvað skemmtilegt með hressu fólki í sumar? Þá er hér um að ræða réttu ferðina fyrir þig, því þessi ferð er stútfull af stanslausu stuði og stemningu á eyjunni fögru. Ferð fyrir ungt fólk, sem hefur áhuga á að kynnast nýju fólki og gera skemmtilega hluti saman. Fullt af adrenalíni, endorfíni og næturlífi af bestu gerð!
Hvað segir þú um að gerast hluti af hópi ungs fólks og skella þér í viðburðaríka og fjöruga ferð til Tenerife, þar sem markmiðið verður fyrst og fremst að kynnast nýju fólki og gera skemmtilega hluti saman alla daga ferðarinnar?
Um er að ræða vikuferð með stappaðri dagskrá fullri af fjöri. Við ætlum að kitla pinnann í jet ski ævintýri, bruna um á buggy bílum, klífa há tré og sveifla okkur á milli þeirra í geggjuðum adrenalíngarði úti í skógi, svífa um loftin blá í fallhlíf aftan í spíttbáti, renna okkur á ógnarhraða niður rennibrautir í flottasta vatnsrennibrautagarði heims og læra að kafa Það verður svo auðvitað djammað fullt og borðaður geggjaður matur í öll mál.
Svo er í boði fjöldinn allur af valfrjálsri afþreyingu svo sem þeysast um á bananabát, fara í go kart keppni, leigja sér hjólabát og margt fleira sem fararstjórar geta verið ykkur innan handar með að bóka.
Þú þarft í raun ekki að lesa meira, hættu að hugsa þig um, smelltu á bókahnappinn og láttu þig ekki vanta í þessa fjörugu ferð með hressustu fararstjórum bæjarins, þetta getur ekki klikkað, verður einfaldlega geggjað stuð!
Sannkölluð adrenalínsprengja!
Tenerife er stærsta eyjan í Kanaríeyjaklasanum. Eyjan býður upp á óteljandi afþreyingarmöguleika m.a. alls kyns möguleika til útivistar í fallegri náttúru, fjörugt næturlíf, skemmtigarða þar sem adrenalínið fær að flæða um æðarnar og einnig frábærar aðstæður til að njóta slökunar á fallegum ströndum í góðu veðri. Þá er rík tónlistarhefð á eyjunni og þar eru haldnir fjöldi tónlistarviðburða ár hvert m.a. á næst fjölmennustu kjötkveðjuhátíð heims, sem haldin er á Tenerife. Þá er auðvelt að finna mat sem gleður bragðlaukana, þannig að þar með er hægt að segja að allt sé til alls á þessari skemmtilegu eyju.
Náttúran á Tenerife er engri lík, þar ríkja miklar andstæður í landslagi, þar sem finna má há og tignarleg fjöll, ýmist með iðagrænum skógum eða víðáttumikil svæði með m.a. gróðri sem aðeins fyrirfinnst á Tenerife. Á eyjunni er m.a. að finna þjóðgarð El Teide, sem hefur að geyma hæsta fjall Spánar sem er í 3.718 m hæð yfir sjávarmáli, en þjóðgarðurinn hefur verið settur á heimsminjaskrá UNESCO. Þar einkennist landslagið af gígum eldfjalla, hraunmyndum og glæsilegu útsýni til allra átta.
Næturlíf á eyjunni fögru er líflegt, sérstaklega á Playa de las Americas og í Los Cristianos. Ferðamenn sem koma til eyjarinnar geta fundið skemmtanalíf af öllu tagi, þar sem fjöldi bara og næturklúbba er að finna víðvegar á svæðinu með margs konar skemmtidagskrá, þar sem góð tónlist ræður ríkjum. Trúbadorar, DJ-ar, Karaoke, bíla- og strandpartý og kvöldpartý í flottasta sundlaugargarði veraldar eru bara brot af þeirri skemmtun sem næturlíf á Tenerife býður upp á.
Þeir sem vilja láta adrenalínið flæða um æðarnar þurfa ekki að leita langt yfir skammt, því að á eyjunni er hægt að finna í raun allt sem tengist spennu og fjöri. Þar er t.d. boðið upp á ýmisskonar strandíþróttir þar sem hægt er að láta draga sig upp um tugi metra með fallhlíf dregna af spíttbáti, fara í fjörugt ævintýri á jet ski, fara á bananabát og láta draga sig á methraða. Þá er einnig að finna fullt af fjörugri afþreyingu á landi eins og skemmtileg jeppasafarí og buggy-bíla ævintýri úti í náttúrunni, en svo er líka hægt að kitla pinnann í go kart, skella sér í vatnleikjafjör í SIAM PARK eða hreinlega stökkva fram af klettum og láta sig svífa yfir strandsvæðið í fallhlíf!
Matur þeirra eyjaskeggja er ekki af verri endanum þar sem framúrskarandi blanda af kanarískri matarmenningu og alþjóðlegri er blandað saman. Á eyjunni er mikið um ferskt sjávarfang og tapas en þjóðarréttur þeirra er hvítlaukskjúklingur með krumpuðum kartöflum, sem kallaðar eru papas arrugadas og með þessu er borin fram mojo-sósa sem er besta paprikusósa heims að mati fararstjóra Tíu þúsund feta. Veitingastaðir eyjarinnar eru eins fjölbreyttir og þeir eru margir og er hægt að finna eitthvað við allra hæfi hvort sem það eru veitingastaðir við ströndina til veitingastaða inni í helli í miðri fjallshlíð.
Næturlíf, adrenalín, tónlist, náttúra og geggjaður matur er blanda sem getur einfaldlega ekki klikkað á Tenerife!
Þriðjudagurinn 16. júlí – Ferðadagur
Miðvikudagurinn 17. júlí – Köfun – kanarísk veisla!
Fimmtudagurinn 18. júlí – Adrenalín á ströndinni – Karaoke!
Föstudagurinn 19. júlí – Buggy – Jetski – safarí – Pizza – Djamm!
Laugardagurinn 20.júlí – Adrenalíngarðurinn Forestal Park – Kjötveisla – Djamm!
Sunnudagurinn 21.júlí – Frjáls dagur!
Mánudagurinn 22. júlí – SIAM PARK – Bestu borgararnir!
Þriðjudagurinn 23. júlí – Ferðadagur
Já, ef þú hefur gaman af að lifa lífinu, þá er þetta rétta ferðin fyrir þig og þína! Þú þarft vissulega að fara út fyrir þægindarammann í sumum ferðunum en ekkert sem er óyfirstíganlegt.
Gist verður á íbúðarhótelinu HG Tenerife Sur sem er á eðalstað rétt hjá gamla bæ Los Cristianos og í um 500 metra fjarlægð frá ströndinni. Gamli bær Los Cristianos er gamall fiskimannabær sem hefur aðlagað sig að túrismanum án þess þó að missa sjarmann sinn, þar sem finna má skemmtilegar göngugötur fullar af flottum veitingastöðum og alls konar verslunum.
HG Tenrife Sur hótelið býður upp á rúmgóðar íbúðir. Á hótelinu er gestamótttakan opin allan sólarhringinn og þar er lítil kjörbúð, veitingastaður, gufubað, sundlaugarbar, hitaðar sundlaugar, nuddaðstaða, líkamsrækt, þvottaaðstaða og Squash-völlur.
Vinsamlega athugið að ljósmyndir af gististöðum, sem birtar eru á heimasíðu Tíu þúsund feta, eru fengnar frá gististöðunum. Þær eru aðeins til þess að gefa hugmynd um útlit þeirra. Tíu þúsund fet bera ekki ábyrgð á því ef eitthvað hefur breyst á gististöðunum frá því að ljósmyndir voru teknar. Tíu þúsund fet stjórna ekki staðsetningu farþega innan gististaða.
Í þessa sérferð Tíu þúsund feta, sem er sérsniðin fyrir unga fólkið fara tveir hressir fararstjórar, þau Tanja Líf Traustadóttir og Hafsteinn Níelsson. Þau þekkja eyjuna eins og lófana á sér eftir að hafa búið og dvalið á eyjunni fögru til margra ára. Þau hafa reynslu af allri afþreyingu sem boðið verður upp á og munu taka virkan þátt í öllu með hópnum. Þau munu sjá til þess að farþegar njóti sín til fulls í þessari ævintýralegu draumaferð, þar sem adrenalín, næturlíf og umfram allt fjör verður sett í fyrsta sæti.
Flug:
Farangur:
Hótel:
Fæði:
Akstur
Fararstjórn
Í nafni náttúrunnar
EKKI INNIFALIÐ
Athugið að listinn er ekki tæmandi og aðeins til viðmiðunar.